Ferming sunnudaginn 29. ágúst kl.11:00 í safnaðarheimilinu Borgum

Ferming verður sunnudaginn 29. ágúst n.k. kl.11:00 í safnaðarheimilinu Borgum. Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari. Félagar úr Kór Kópavogskirkju syngja undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur.

Síðsumarsfermingarnámskeið

Síðsumarsfermingarnámskeið fór fram í Kársnessókn 20. og 23. ágúst síðastliðinn en fræðslan heldur svo áfram í vetur fram að fermingum næsta vors. Unglingum á Kársnesi, sem og öðrum íbúum fer nú fjölgandi og hefur ekki svona fjölmennur hópur sótt fræðslu í þó nokkur ár í söfnuðinum. Fræðsluna annast: sr. Sjöfn Jóhannesdóttir, sem hefur þjónað við Kársnessöfnuð síðan í byrjun síðasta árs, Ásta Ágústsdóttir, djákni safnaðarins og sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur. Fjallað var á námskeiðinu um ýmsa þætti kristinnar trúar til dæmis: bænina, Biblíuna, líf og starf Jesú Krists, sorgina og dauðann, trúarjátninguna, boðorðin og svo má áfram telja. Tveir útfararstjórar komu og sögðu frá starfi sínu og annar þeirra, sem er danskennari að mennt kenndi svo hópnum og sóknarpresti og dans við vinsælt gospel lag, sem kemur frá Suður Afríku. Kristín Ólafsdóttir, frá Hjálparstarfi kirkjunnar sagði frá starfinu þar, Björn Hólm frá Gídeonfélaginu afhennti fermingarbörnunum Nýjatestamenntið að gjöf. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði meistarflokks Breiðabliks í knattspyrnu fjallaði um það að sinna sjálfum sér og Laufey Brá Jónsdóttir, guðfræðingur og leikkona fór með hópunum yfir söguna af Miskunna Samverjanum og sett voru upp leikrit byggð á sögunni.

Endurbætur á Kópavogskirkju

Nú stenda yfir umfangsmiklar endurbætur á steindu gleri Gerðar Helgadóttur á vesturhlið kirkjunnar en verkið fer fram á verkstæði Oidtmanns fyrirtækisins í Linnich í Þýsklandi. Á sama tíma fara fram endurbætur á umjörð glugga á sömu hlið en fyrirtækið Fagsmíði annast þann verkþátt og Björgvin Tómasson, orgelsmiður og félagar gera við orgel kirkjunnar. Verklok eru áætluð snemma í haust. Ljóskross kirkunnar á austurhlið var tekinn niður en verið er að laga festingar fyrir hann, sem og að múra neðri bogann að utanverðu. Krossinn verður settur fljótlega upp. Meðfylgjandi mynd er af austurhlið kirkjunnar.

Sumarferming í Hjallakirkju 22. ágúst síðstliðinn

Fimm unglingar fæddir árið 2007 úr Kársnessókn fermdust í Hjallakirkju 22. ágúst síðastliðinn en núna standa yfir fram á haust umfangsmiklar endurbætur á steindu gleri Gerðar Helgadóttur á vesturhlið Kópavogskirkju og orgeli kirkjunnar. Digrannes- og Hjallasöfnuður skaut því yfir okkur skjólshúsi og erum við mjög þakklát fyrir hjálpina og stuðninginn að þessu sinni, sem endranær. Sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur Kópavogskirkju prédikaði og þjónaði og félagar úr Kór Kópavogskirkju sungu undir stjórn Lenku Mátéová. Meðfylgjandi mynd var tekin af skóm fermingarbarnanna áður en fermingin fór fram.

Fermingarguðsþjónusta 22. ágúst

Fermingarguðsþjónusta fyrir Kársnessöfnuð verður í Hjallakirkju (nú fara fram endurbætur á Kópavogskirkju og kirkjan lokuð vegna þess) sunnudaginn 22. ágúst kl.11:00. Sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur prédikar og þjónar fyrir altari. Félagar úr Kór Kópavogskirkju syngja undir stjórn Lenku Mátéová.

Fermingar í ágúst, 2021

Fermt verður sunnudaginn 22. ágúst kl.11:00 í Hjallakirkju og þann 29. ágúst kl. 11:00 í safnaðarheimilinu Borgum (skáhalt gengt Gerðarsafni).
Æfingar fyrir fermingar eru sem hér segir:
Föstudaginn 20. ágúst kl. 16:00-17:00 í Hjallakirkju (ekki 10:00 eins og var búið að auglýsa) fyrir þau sem fermast 22. ágúst og
Föstudaginn 27. ágúst kl.16:00-17:00 í safnaðarheimilinu Borgum fyrir þau sem fermast 29. ágúst.
Fermingarbörn skulu mæta í Hjallakirkju (22. ágúst) og í safnaðarheimilið Borgir (29. ágúst) kl. 10:30.
Upplýsingar um sóttvarnir má finna á vef Heilbrigðisráðuneytisins. Allar takmarkanir ná til landsins alls og almenna reglan um fjöldatakmörkun er 200 manns. Minnum á persónubundnar sóttvarnir.Grímuskylda er innandyra þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Skráning þátttakenda á allar athafnir og viðburði er í gildi, og fer hún fram fyrir athöfnina í Hjallakirkju þann 22. ágúst n.k. og í anddyri safnaðarheimilisins Borga sunnudaginn 29. ágúst. n.k. Ákvæði um fjöldatakmörkun og nálægðartakmörkun taka ekki til barna sem fædd eru 2016 og síðar.
Grímuskylda á ekki við börn sem fædd eru 2006 og síðar.

Breyttir tímar vegna sumarfermingarfræðslu

Síðssumarsfræðsla – Breyttir tímar

Síðsumarnámskeið verður föstudaginn 20. og  mánudaginn 23. ágúst, 2021 frá kl. 9:00 – 15:00 í safnaðarheimilinu Borgum.  

Vetrarfermingarfræðsla (fyrir þau sem ekki eru á síðsumarsnámskeiðinu) verður vikulega næsta vetur frá og með 6. september, 2021 kl:16:15 – 17:00 í safnaðarheimilinu Borgum. 

Þau sem eiga eftir að skrá sig í fræðsluna eru beðin um að gera það við fyrsta tækifæri (kopavogskirkja@kirkjan.is).

     Tvær kynningarguðsþjónustur og upplýsingafundir verða 3. október, 2021 og 30. janúar 2022 og upplýsingafundir með foreldrum og fermingarbörnum strax á eftir.  Mikilvægt er að foreldrar og fermingarbörn komi í guðsþjónusturnar og á upplýsingafundina. 

Þann 29. september, 2021 verður farið í dags fermingarfræðsluferð í Vatnaskóg. 

 

Helgistund 15. ágúst 2021 kl. 11:00 í safnaðarheimilinu Borgum

Helgistund verður í safnaðarheimili Kópavogskirkju, sunnudaginn 15. ágúst n.k. kl.11:00. Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir, leiðir stundina og Peter Máté, annast tónlist.