Skírn

Í heilagri skírn er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelisk – lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.

Ferming

Ferming þýðir staðfesting. Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni. Það fer með trúarjátninguna, vinnur fermingarheit og þiggur fyrirbæn og blessun.

Hjónavígsla

Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar, karl og kona, eða tveir karlar eða tvær konur, heita hvor öðrum ævitryggðum, að eiga, njóta og þiggja saman önn sem yndi lífsins, gleði og sorgir.

Útfarir

Þegar einhver deyr þá fer fram útfararathöfn, venjulega í kirkju, og síðan greftrun í kirkjugarði. Undanfari hennar er kistulagning , sem er bænastund með aðstandendum þegar hinn látni hefur verið lagður í kistuna, og áður en kistunni er lokað.

Sorgarhópar

Kópavogskirkja býður upp á sorgarhópa á hverju ári og ná til allra sem vilja leita sér hjálpar á erfiðum stundum og hafa misst ástvin. Nánari upplýsingar veita sóknarprestur eða djákni í síma: 554 1898 en skrifstofa safnaðarins er opin 09:00-13:00 á virkum dögum.

Eftirfylgd við fólk í erfiðum aðstæðum

Kópavogskirkja býður þeim sem eru í erfiðum aðstæðum að taka þátt í verkefni sem auðveldar þeim að komast í gegnum sorg vegna missis. Missir getur verið af ýmsu tagi, heilsubrestur, atvinnumissir, ástvinur sem deyr eða aðrir erfiðleikar sem bjáta á. Þessi þjónusta er að sjálfsögðu að kostnaðarlausu eins og öll sálgæsla kirkjunnar. Allar upplýsingar fást hjá sóknarpresti og djákna kirkjunnar.