Hjónavígsla

Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar, karl og kona, eða tveir karlar eða tvær konur, heita hvor öðrum ævitryggðum, að eiga, njóta og þiggja saman önn sem yndi lífsins, gleði og sorgir.

Hjónavígslan er tjáning gleði og fagnaðar, samstöðu, ábyrgðar og vonar á þessum vegamótum lífsins sem hjónin eiga. Söfnuðurinn umlykur hjónin fyrirbæn sinni ásamt kirkjunni allri og vill með Jesú Krist sem fyrirmynd sýna því samfélag hinnar gagnkvæmu þjónustu og þörf allra fyrir samfélag við Guð og náungann utan hrings fjölskyldunnar.

Návist Guðs í hjónabandinu veitir hjónunum hjálp til að lifa saman í kærleika og umhyggju og vera vottar þess í umhverfi sínu. Hjónin játast hvort öðru opinberlega fyrir Guði og söfnuðinum, heita því að vera hvort öðru trú, elska og virða hvort annað. Guð sameinar þau, þau tvö verða eitt. Presturinn minnir þau á skuldbindingar og ábyrgð og fyrirheit hjónabandsins, og lýsir þau hjón og leggur blessun Guðs yfir hjúskap þeirra. Viðstaddir biðja fyrir þeim og heimili þeirra.

Meginregla er að kirkjubrúðkaup fari fram í kirkju en heimild er fyrir því að giftingarathöfn geti farið fram á heimili eða utanhúss. Í það minnsta skulu vera viðstaddir tveir vottar, eða svaramenn, en oftast eru það fleiri, úr söfnuðinum eða fjölskyldum brúðhjónanna.