Mál dagsins

Næsta “Mál dagsins” verður þriðjudaginn 13. janúar n.k. og hefst kl. 14:30 með samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Mátéová. Um kl. 15:10 mun Eyjólfur Eyjólfsson, söngvari fjalla um íslenska langspilið.  Kaffi verður drukkið kl. 15:30 og stundinni lýkur með stuttri helgisstund kl. 16:00.

Allir hjartanlega velkomnir.

Guðsþjónusta 11. janúar 2015

Næsta guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju 11. janúar n.k. kl. 11:00.  Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Sunnudagaskólinn hefst aftur eftir jóla- og áramótafrí.

Mál dagsins 13. janúar

Mál dagsins hefst á ný eftir jólafrí þriðjudaginn 13. janúar kl. 14.30.

Hugleiðing flutt á Nýjársdegi

Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands flutti eftirfarandi hugleiðingu í hátíðarguðsþjónustu í Kópavogskirkju á Nýjársdegi 2015

“Ég var að koma að Fitjum með um þúsund fjár eftir viku smalamennsku með bændum á Rangárvallaafrétti. Síminn búinn að vera batteríislaus í viku og ég algjörlega utan þjónustusvæðis fyrir mína nánustu. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af sjálfstæðum börnum mínum í góðri umsjón eiginmannsins, en ákvað þó að skella símanum í rafmagn, þegar það bauðst. Duttu þá inn skilaboð frá Kópavogsklerknum – æskuvini mínum af Nesinu og skólafélaga úr Menntaskólanum. Og þegar maður er að koma af fjalli, þar sem vaknað er klukkan sex á morgnana, sest í hnakkinn klukkan átta og gengið á fjöll fram í myrkur, þá telur maður sig geta allt. Þess vegna stend ég hér – því þegar beiðnin frá Sigurði kom um að halda þessa tölu, fannst mér það minnsta mál í heimi. Um leið og búið var að rétta og ég var komin til byggða, fóru að renna á mig tvær grímur yfir hvatvísinni…..

Ég ákvað því í ár að kaupa 200 jólakort í stað þess að föndra þau, eins og ég hef alla tíð gert, og nota heldur tímann til lesturs. Ég fann til bók nokkra frá árinu 1976, þar sem predikanir langafa míns, séra Sigurjóns Jónssonar á Kirkjubæ í Hróarstungu eru ritaðar. “Ég gæti sloppið billega… kannski finn ég bara eina góða predikun og flyt hana?” hugsaði ég. Þar sem langafi Sigurjón lést áður en ég fæddist – og er ég nú samkvæmt nýrri skilgreiningu orðin gott betur en roskin – átti ég nú ekki von á því að mikið gagn væri í þessum ræðum  – skrifaðar á miðri síðustu öld. En annað átti eftir að koma í ljós. Þegar umræðan um kirkjuferðir skólabarna á aðventu náðu hámarki um miðjan desembermánuð, sökkti ég mér ofan í ræðurnar og fann þar djúpan samhljóm. Séra Sigurjón lagði áherslu á að það skipti ekki máli hvaða trú maðurinn játar. Hann segir í einni tölu sinni: “Þeim fer fjölgandi, sem eru að fráhverfast umbúðakristni og í hennar stað flytja ómengaða kristna kenningu. En kjarni þeirrar kenningar er sá, að Guð sé kærleikur og þar sem hann sé faðir allra manna, ætti mannkynið allt að skoðast sem ein fjölskylda, bundin sáttmála bræðralagsins. Þessi skoðun á fagnaðarerindinu er langlíklegust til að vinna hjörtu manna, hvort sem þeir búa í austri eða vestri.”  Og hann bætti við:

“Nú getur naumast nokkur upplýstur maður skoðað kristnina lengur annað en einn þeirra vega, sem leiða til Guðs. Hinir vegirnir – leiðir annarra trúarbragða – liggja líka þangað. Það vill svo til að ég hef persónulega kynnst ýmsum ágætum heiðingjum og ekki orðið var við minni hlýju í hjörtum þeirra en kristinna manna. Væri líf hins besta heiðingja og besta kristna manns lagt á metaskálar, sem gætu vegið mannslíf, mundi þyngdarmunur enginn finnast”.
Okkur er nefnilega tamt að skipta í lið, eins og gert var í brennó í gamla daga. Karlar og konur -– samkynhneigðir og gagnkynhneigðir – hvítir og svartir – trúaðir og trúlausir. Með tilvitnun í orð séra Sigurjóns vil ég ekki mæla gegn kirkjuheimsóknum skólabarna, þvert á móti. Velflestar hátíðir okkar eru bundnar trúarlegum hugmyndum. Helgisagan er falleg saga fátæks fólks sem fær hvergi inni nema í gripahúsi. Litla fjölskyldan er samsett frá fyrsta degi, stjúppabbinn Jósef reyndist Jesú góður faðir og ekki hef ég lesið um að hugsanlegar efasemdir hans varðandi faðernið hafi bitnað á sambandi hans og Maríu. Bara þessi boðskapur á fullt erindi inn í samtímann – hvort sem menn kjósa að tilheyra þjóðkirkjunni eður ei. Þessa sögu má ekki taka frá börnum þessa lands og síst frá þeim börnum sem á einhvern hátt finna sig í svipuðum aðstæðum og litla fjölskyldan í Betlehem forðum daga. Sálmurinn um að í Betlehem sé barn oss fætt er hættulaus með öllu.
Kannski er það merki um að maður sé að eldast, en mér finnst mikilvægt að halda í hefðirnar. Koma þekkingu þeirra kynslóða, sem byggðu þetta land á undan okkur og fyrir okkur, áfram til afkomenda okkar. Smalamennskan er gott dæmi um að halda í hefðir. Á fjöllum upplifir maður sterkt hve hörð lífsbaráttan gat verið hér áður fyrr – smalar áttu stundum ekki í hús að venda heldur höfðust við í hellum. Nú er hafist við í hlýjum fjallakofanum, með nægilegt hey fyrir öll hrossin og stígvélin eru ekki lek. Á þann hátt öðlast maður virðingu fyrir því sem var og þakklæti fyrir það sem er. Slíkt veganesti er gott veganesti í daglegu amstri.
Sama á við um hefðir okkar á aðventunni. Það er mikilvægt að halda sögunni lifandi og leyfa börnunum að taka þátt í helgileiknum. Vettvangsferðir í kirkjur á vegum skóla eiga að vera hluti af því að mennta ungviðið og ég veit, að prestar vanda sig mjög til verksins, svo fræðslan beri ekki merki trúboðs heldur kærleika. Þá verður hefðbundinn orðaforði að vera leyfilegur – við erum jú ekki stödd í Harry Potter bíómyndinni þar sem ekki má segja “Voldemort”. Því hvað er guð? Bragi Valdimar Skúlason orðbragðssnillingur kemst skemmtilega að orði þegar hann segir: “Skrýtið með þennan guð. Trúaðir eru alltaf að leita að honum á meðan trúlausir sjá hann í hverju horni og láta hann fara í taugarnar á sér.”
Sálmaskáldið Valdimar Briem segir hins vegar:
“Guð, allur heimur, eins í lágu’ og háu,
er opin bók, um þig er fræðir mig,
já, hvert eitt blað á blómi jarðar smáu
er blað, sem margt er skrifað á um þig.”
Við rökhyggjufólkið vil ég segja: Það er margt sem liggur utan okkar skilnings. Það er ekki hægt að sanna tilvist guðs með áþreifanlegum hætti eins og t.d. Pyþagorasar-regluna. Við getum skilgreint nótur á blaði sem tónlist, en við getum ekki sannað vísindalega að Sigríður Thorlacius syngi betur en Leoncie. Mig langar að vitna aftur í séra Sigurjón þar sem hann segir: “Maður, sem átt hefur vin, er hefur fylgt honum í lífinu, og sem hefur leitt til fölskvalausrar vináttu og órofatryggðar á enga nákvæmari þekkingu til á nokkru öðru. Hann gerþekkir svo þennan vin sinn, að ekkert getur hnekkt þeirri þekkingu. Þessi þekking hefur hvorki komið fyrir krufningu né uppskurð, og ekki heldur um farvegi hugfræðilegrar hyggju. Hún hefur borizt um ála samúðarskilnings og trúar.” Samvitund er í raun ein hlið trúar og veitir sérstaka þekkingu og hana er erfitt að sanna vísindalega. Ég bið því um að öllu hinu góðu sé ekki kastað fyrir borð í nafni hlutleysis, á þeim forsendum að sönnunina skorti.
Í dag hefst nýtt ár með fögrum fyrirheitum og vonandi tilhlökkun hjá okkur öllum. Áramót eiga að hvetja okkur til að staldra við, íhuga og skoða hvernig við getum þroskað okkur og bætt sem manneskjur. Mig langar að enda orð mín á bæn eftir heilagan Tómas More, en Franz páfi kaþólsku kirkjunnar fer með þessa bæn daglega.  Þessa bæn ætla ég að hafa að mínu leiðarljósi á árinu sem hófst í dag:
”Gefðu mér, Drottinn, góða meltingu og einnig eitthvað til að melta. Gefðu mér heilbrigðan líkama og hið góða skap sem er nauðsynlegt honum til viðhalds. Gefðu mér einfalda sál sem kann að varðveita allt hið góða og hræðist ekki auðveldlega frammi fyrir hinu illa heldur finnur leiðir til að koma öllu í samt lag á ný. Gefðu mér sál sem aldrei leiðist, nöldrar, kveinkar sér og vælir. Gefðu mér ekki heldur of mikið álag vegna þeirrar hindrunar sem nefnist “ég”. Gefðu mér, Drottinn, gott skopskyn.  Veittu mér þá náð að geta tekið gamni og finna dálitla gleði í lífinu og geta notið hennar með öðrum. Amen.”

Helgihald í Kópavogskirkju um áramót

Gamlársdagur, 31. desember, kl. 18:00. Guðsþjónusta, sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari.  Tónlistarflutningur með óhefðbnu sniði,  Kristín Stefánsdóttir og félagar sjá um tónlistarflutning.

Nýjársdagur, 1. janúar, kl. 14:00.  Hátíðarguðsþjónusta.  Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands flytur hugleiðingu. Sr. Sigurður Arnarson, þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová. Hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar.

11. janúar, 2015 kl. 11:00.  Guðsþjónusta.  Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Sunnudagaskólinn hefst aftur eftir jólafrí.

Helgihald um jól og áramót

Aðfangadagur, 24. desember, kl. 15:00.  Beðið eftir jólunum, helgistund með sunnudagaskólaívafi.  Sunnudagaskólakennarar og sóknarprestur annast stundina.

Aðfangadagur, 24. desember, kl. 18:00.  Hátíðarguðsþjónusta.  Ásta Ágústsdóttir, djákni prédikar.  Sr. Sigurður Arnarson þjónar fyrir altari.  Einsöngur: Þórunn Elín Pétursdóttir og einleikur á flautu: Hafdís Vigfúsdóttir. Hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar. Hátíðartónlist flutt frá kl. 17:30.

Jóladagur, 25. desember, kl.14:00.  Hátíðarguðsþjónusta, dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari.  Hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Annar jóladagur, 26. desember, kl. 11:00.  Kópavogskirkjuganga.  Stutt helgistund í kirkjunni og að henni lokinni verður boðið upp á í samvinnu við Sögufélag Kópavogs hálftíma göngu um Kársnes undir stjórn Frímanns Inga Helgasonar.  Á eftir verður boðið upp á “gönguvænar” veitingar í safnaðarheimilinu Borgum.

Gamlársdagur, 31. desember, kl. 18:00. Guðsþjónusta með óhefbundnu sniði.  Kristín Stefánsdóttir og félagar sjá um tónlistarflutning.

Nýjársdagur, 1. janúar, kl. 14:00.  Hátíðarguðsþjónusta.  Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands flytur hugleiðingu.  Hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Í öllum guðsþjónustum prédikar og  þjónar sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur og Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová, nema annað sé tekið fram.

Guðsþjónusta 21. desember kl. 11:00

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 21. desember n.k. kl. 11:00.  Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová. Sunnudagaskólinn hefst að venju kl. 11:00 í kirkjunni.

“Mál dagsins” 16. desember fellur niður vegna veðurs

“Mál dagsins” fellur niður í dag, þriðjudaginn 16. desember vegna veðurs. Starfið hefst aftur þriðjudagin 13. janúar, 2015 kl. 14:30 eftir jólafrí.

Opið hús hjá Birtu – Landssamtökum

Birta – Landssamtök standa fyrir opnu húsi þriðjudaginn 16. desember kl 20:00 í Grafarvogskirkju.

Gestir kvöldsins verða tveir, en það eru þær:

  • Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur, sem mun fjalla um streitu aðstandenda í kjölfar skyndidauða. Margrét    starfar nú um stundir sem sjálfstæður meðferðaraðili  en hún hefur langa reynslu af störfum í nálægð dauðans, m.a. við áfallamiðstöð Landspítalans.
  • Guðrún Karls Helgudóttir prestur í Grafarvogskirkju, sem mun vera með jólahugleiðingu þar sem hún ræðir um sorg og jól.

Samveran er öllum opin og þeim að kostnaðarlausu.

Mozart við kertaljós

Kópavogskirkju, laugardagskvöldið 20. desember kl. 21: 

Camerarctica heldur sína árlegu kertaljósatónleika í kirkjum nú rétt fyrir jólin.  Hópurinn hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart í tuttugu og tvö ár og þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu. Hópinn skipa að þessu sinni þau Ármann Helgason, klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir og Bryndís Pálsdóttir fiðluleikarar, Svava  Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Haldórsson, sellóleikari. Á dagskránni eru tvær af perlum Mozarts “Eine kleine Nachtmusik” Kv. 525 og Klarinettukvintettinn K. 581.

IMG_9826-150x150

Að venju lýkur tónleikunum á því að Camerarctica leikur jólasálminn góða,”Í dag er glatt í döprum hjörtum.”

Tónleikarnir eru klukkustundarlangir og hefjast klukkan 21.00. Aðgangseyrir er kr.2500 og kr.1500 fyrir nemendur og eldri borgara og frítt inn fyrir börn. Miðasala við innganginn.