Prédikun dr. Karls Sigurbjörnssonar á gamlársdag í Kópavogskirkju

Kópavogskirkja, gamlárskvöld 2016

Lexía gamlárskvölds er úr Harmljóðunum:   En þetta vil ég hugfesta og þess vegna vona ég: Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín. Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vona ég á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona og þeim manni er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins. Fórnum hjarta og höndum til Guðs í himninum. (Harmljóðin 3.21-26)

Guðpjallið er úr Lúkasarguðspjalli: Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara  eins og þú hefur heitið mér  því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.  (Lúk.2.25-32)

Enn líður ár, hjálpa okkur að horfa ekki um öxl í söknuði og reiði, og fram á við í kvíða og áhyggjum, heldur horfa kringum okkur hér og nú í árvekni, eilífi Guð og faðir. Amen

Við höfum numið staðar í helgidóminum á kvöldi gamla ársins. Enn á ný kveðjum við ár, sem hverfur í aldanna skaut og aldrei kemur til baka. Það er sem ögurstund er við finnum tímans þunga nið og óvissu framtíðar.

Við höfum numið staðar til að átta okkur, skyggnast um, hlusta. Blossarnir leiftra, skoteldar springa með dunum og dynkjum. Og minna á vábresti og blossa hermdarverka og stríðshörmunga, stundum jafnvel á dómsdag. Hvað sjáum við í glampa þeirra? Greinum við einhver kennileiti sem vísi til réttar áttar? Hvar er leiðsögn að finna í okkar nútíma, hvar eru kennileitin?

Okkur finnst mörgum sem það séu reynslutímar í veröldinni. Höfum við gengið til góðs, sem einstaklingar, sem samfélag? Hefur siðmenningunni fleytt fram?

Haft var eftir kellíngu austur á landi á liðinni öld: „Alveg er ég stanshissa á lambaskömmunum. Þarna eru þau rekin eftir sömu götunum ár eftir ár og alltaf er sama bévítis óþekktin í þeim!“

Jú, þetta eru sömu göturnar. En við?

Hvar eru leiðarmerkin? Hvert sækir fólk sér grundvallarvitund um rétt og rangt, gott og illt? Hvar mótast samviskan? Sagt er að sjö ára barn í okkar heimshluta hafi horft að meðaltali á 20.000 sjónvarpsauglýsingar sem gefa ein og aðeins ein skilaboð, sem sé: Þú ert neytandi. Og að lausnin á öllum vanda sé fólgin í því sem hægt er að kaupa sér. Þetta er öflugasti uppalandi okkar samtíðar og siðmenningar. Heimilin og skólarnir hafa ekki roð við því.

Hvað megnar að hamla gegn því ofurefli sem leitast við að móta líf okkar og gera að sálarvana neytendum og hugsunarlausum áhorfendum? Ótal dæmi staðfesta það, fyrr og síðar að hvarvetna, sem allt er metið til markaðsverðs og út frá fjárhagslegum forsendum, þar lýtur hið veika og vanmegna og ungviðið í lægra haldi, afskiptalaust og vanrækt. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa.

Frans páfi spurði: „Hvernig getur það verið að það telst ekki frétt ef heimilislaus manneskja verður úti, en það er frétt ef hlutabréfamarkaðurinn fellur um tvö stig?“

Já, hvernig getur það verið?

Svo ótal margt í sögu og samtíð okkar vitnar um að tæknin hafi forgang og fjármagnið en ekki fólkið. Og það er ekkert náttúrulögmál, heldur pólitískt og siðferðislegt val. En mun um síðir tortíma mennskunni.

Ritningin segir að grundvallarsyndin sé sú að taka ráðin í eigin hendur. Það leiðir í ógöngur. Það er svo grátlegt hve við erum gjörn að bisa við að hrófla upp Babelsturnum í stað þess að geta spókað sig í Edensgarði. Babelsturnarnir eru svo víða, eða kannski Trump turnarnir.

Ég var að leita að náttfötum á lítinn afastrák og undraðist að það myndefni sem þau prýða. Hauskúpur og annar óhugnaður, og svo stríðsmenn sem munda vopn sín, eitthvað tengt StarWars, eða öðrum slíkum heimsendabíómyndum frá Hollywood eða sýndarveruleik tölvuleikjanna. Hvers vegna eru það slíkar myndir, sem sífellt birtast ægilegri og stórbrotnari, sem laða að? Nú er ég ekki að segja að þessar myndir geti ekki verið hin besta skemmtun og upplyfting, jafnvel hreinsandi reynsla og hressandi. En, já hvaða veganesti gefa þessar alvopnuðu tölvupersónur ungum sálum til lífsgöngunnar? Hvaða heimssýn, hvaða mannskilning móta þær?

Þessar sögur eiga sér sameiginlegt að segja að menning okkar og samfélag sé að hrynja, að heimurinn sé á ystu nöf. Þar takast á æðisgengin reginöfl í einhverjum kosmiskum, æsispennandi og yfirþyrmandi hildarleik.

Grunnstefið er tilgangsleysið og tómið, heimur sem hófst með stórahvelli og hrynur loks saman inn í ginnungagap svartholsins. Það er víðsfjarri boðskap jólanna, boðskap kristninnar. Þar er gengið út frá því að tilveran eigi sér upphaf og enda í elsku Guðs og náð. Elsku Guðs og náð. Í upphafi var Orðið og Hann mun hafa síðasta orðið. Jesús. Orðið sem varð hold, mannsbarn meðal mannsins barna í heiminum okkar. Lausnin sem hann býður fram er ekki valdbeitingin heldur mildin, umhyggjan um aðra.

Hvar er þær fyrirmyndir að finna, sem vitna um það?

Lýðræðissamfélag Vesturlanda líður undir niðurbroti og hrörnun samfélagslegra dyggða. Heimsslitin eru ekki innbyggð nauðsyn í sögu eða náttúru. Nei, þau koma innanfrá, menningarleg, sálfræðileg félagsleg hrun. Þess vegna þurfum við stofnanir, iðkun, frásögur, söng, sem vekja og næra innsæi til hins góða og fagra og fullkomna. Hin veraldlega, guðlausa heimslitamynd bendir á orsakir hrunsins, en sýnir ekki neina lausn eða von fyrir dauðlegar manneskjur eins og mig eða þig. Sjónvarpsþættirnir, House of Cards, Spilaborg, afhjúpa glímu valdasýkinnar við innbyggt tilgangsleysi hins sjálfsskapaða lífs. Hungurleikar benda á lífsgæðadýrkun og misrétti. En hvað svo? Hvert er svarið, hver er lausnin í litla hversdagsheiminum okkar?

Þegar óttinn sigrar örlætið í viðbrögðum okkar við hinum framandi, ókunnugu, sem á vegi verða, þegar tortryggnin mótar viðhorf til útlendinga, – nema þá þeirra sem sem við getum grætt á – , þegar óttinn, heimskan og hrokinn taka höndum saman í einu samfélagi þá er voðinn vís. Það má sjá í löndunum í kringum okkur. Margir sjá sigur Donalds Trump í Bandaríkjunum sem birtingarmynd slíkra viðhorfa sem grafa um sig á Vesturlöndum. Og boðar ekki gott.

Þegar allt gert að álitum og grundvallartortryggni ríkir gegn hvers kyns kennivaldi, sérílagi því sem höfðar til trúarlegra viðmiða; þegar unnið er markvisst að því að úthýsa Jesú mynd og nafni og hinni kristnu skilgreiningu á lífi, heimi, veruleikanum, hvað kemur þá í staðinn? Jú, það sem miðlað er af fjölmiðlunum og Youtube og auglýsingunum. Og ef svo er þá eru voldugustu valdhafar þessa heims ekki í Washington eða Kreml, hvað þá við Austurvöll, heldur þau sem ráða fjölmiðlunum og tískuheiminum. Og svo virðist sem við afhendum þeim fúslega vald yfir börnunum okkar og ómótuðum sálum þeirra.

Heimurinn þarfnast þeirrar framtíðarsýnar sem Jesús setur fram um lækning, ljós og líf, sem sprettur af rótum elskunnar, umhyggjunnar. Og heimurinn þarfnast karla og kvenna sem halda ótrauð áfram að þjóna þessum brothætta heimi og særðu mennsku, samverkafólk skaparans, systkin frelsarans. Ekki tölvumenn, sem alvopnaðir geislasverðum og æðisgengnum drápstólum vaða fram, heldur manneskjur af holdi og blóði, varnalausar, dauðlegar, en hugrakkar, sannar, ábyrgar, heiðarlegar við sjálfa sig og aðra á vettvangi dagsins. Það sýnir barnið í Betlehem. Þar var engin ofurhetja, það sýna jatan og krossinn svo berlega. Og birtan frá Betlehem, birta umhyggju, friðar, vonar. Barnið í Betlehem sagði síðar um sjálfan sig: „Ég er vegurinn!“ Og kallar okkur að halda okkur við þann veg, hamingjuleið og heilla fyrir okkur sjálf og heiminn okkar. Hinn kristni helgidómur, hátíðir og siðir er iðkun sem sækir sér næringu í sögur, minningar og hefðir og bæn, sem tengja mann við samhengi kynslóðanna, styrkja hinn innri áttavita samviskunnar, vekja samhug með öðru fólki og virðing fyrir æðri veruleika. Það er mannrækt, forvörn, andleg heilsulind.

Og eins og heilræðið forna segir: „Gættu hugsana þinna, því þær verða að orðum. Gættu orða þinna, því þau verða að verkum. Gættu að verkum þínum, því þau verða að venju. Gættu að venjum þínum, því þær verða að skaphöfn. Gættu að skaphöfn þinni, því hún verður örlög þín.“

Við höfum numið hér staðar við áramót. Árið 2016 líður í aldanna skaut og að venju kvatt með sprengjudrunum og glömpum. En hvað heyrum við hér í helgidóminum? Við heyrum enduróm jólanna. Við heyrum um foreldra sem bera barn sitt í helgidóminn og mæta þar gömlum manni sem tekur barnið fagnandi sér í fang og lofar Guð, því hann sér í þessu barni von og ljós og frið og framtíð. Eins megum við fagna þessu barni í trú og von. Birtan hans laugar minningu þeirra sem við misstum og söknum, varpar vonarbirtu yfir hið ókomna og boðar morgunroða framtíðarinnar. Og okkur er ætlað að vera börn ljóssins og dagsins, sem hafa fundið von og traust í orði Jesú, lífi, krossdauða, upprisu. Þrátt fyrir allt myrkur og ógnir allar þá er nýr dagur runninn yfir heiminn með frelsi og frið. Hvað sagði ekki lexían sem við heyrðum áðan? „Náð Guðs er ný á hverjum morgni.“ Gamlárskvöldi fylgir nýársdagur! Hverju kvöldi fylgir morgun, í birtu náðar Guðs. Biðjum að vilji hans verði, ríki hans komi. Felum hið liðna fyrirgefningu hans og hið ókomna náð hans. Því að hans er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Gleðilegt ár!