Bæn dr. Karls Sigurbjörnssonar frá gamlársdegi 2016.

Kirkjubæn

Biðjum saman í Jesú nafni: Eilífi, almáttugi Guð og faðir, þú sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, og af náð þinni gefur okkur dag í senn og andartak í einu. Við þökkum þér árið sem senn er liðið, fyrir gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Kenn oss að telja daga vora að vér getum öðlast viturt hjarta. Við felum þér Ísland og líf þess, byggðir landsins og börn þess öll, samfélag, menningu og tungu og trú, stjórnvöld og áhrifavalda þjóðfélagsins, atvinnulíf og efnahag, alla tímanlega og eilífa farsæld.

Í þínar hendur felum við árið liðna og í trausti til handleiðslu þinnar höldum við inn um dyr hins nýja. Vísa okkur vegu þína, Drottinn, og leið okkur gegnum skammdegi lífsins að við náum því marki sem þú hefur sett jarðlífsgöngu vorri. Heyr þá bæn og allar bænir vorar, óskir og vonir, þarfir og þrár sem við felum miskunn þinni í orðum bænar Drottins: Faðir vor…