Prédikun á föstudeginum langa 25. mars 2016

Prédikun á Föstudeginum langa 25. mars 2016

Biðjum í Jesú nafni:

„Vertu Guð faðir faðir minn

í frelsarans Jesú nafni.

Hönd þín leiði mig út og inn,

svo allari synd ég hafni.“

 “Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi”. Amen.

Ímyndum okkur banka, sem á hverjum morgni leggur inn 86400 krónur á reikning á nafni okkar hvers og eins.

Á hverju kvöldi tekur bankinn svo til baka það, sem við höfum ekki eytt af fjárhæðinni, sem lögð var inn um morguninn.

Hvað myndir þú gera þegar þú myndir átta þig á þessu?

Eyða 86400 krónum daglega?

Væri það flókið á hverjum einasta degi?

Hvert og eitt okkar á banka, sem kallast tíminn.

Á hverjum nýjum morgni fáum við um það bil 86400 sekúndur til að nýta á þann hátt, sem við viljum.

Á hverju kvöldi er ónotuð stund horfin fyrir fullt og allt.

Það eru engir lánamöguleikar eða yfirdráttur, engin leið að leggja fyrir.

__________________

Er boðskapur þessarar sögu að við eigum að nota tíman eins skynsamlega og við getum?

Gera hvern dag minnistæðan, mikilvægan?

Til hvers?

Hvaða tilgangi þjónar það?

Gerir það eitthvað fyrir mig?

Gerir það eitthvað fyrir þig?

Til að skilja gildi eins mánaðar, er hægt að spyrja foreldrana sem eignuðust barn, sem fæddist fjórum vikum fyrir tímann.

Til að skilja gildi eins dags, er hægt að spyrja fanga, sem verður látinn laus á morgunn.

Til að skilja gildi einnar stundar er hægt að spyrja til dæmis: unga manneskju, sem bíður í ofvæni eftir að hitta ástina sína, sem væntanleg er eftir eina klukkustund.

Til að skilja gildi einnar mínútu, er hægt að spyrja manneskju sem er að missa af lest.

Til að skilja gildi einnar sekúndu, þá er hægt að spyrja manneskju, sem naumlega er forðað frá slysi.

Til að skilja gildi millisekúndu, er hægt að spyrja hundraðmetra hlaupara, sem hreppti silfur á stórmóti.

Til að skilja gildi kristinninar túar, er hægt að spyrja manneskju, sem trúir og treystir Guði.

__________________

Skiptir sérhver stund máli?

Skiptir máli hvernig lífi við lifum?

Skiptir máli að lifa lífi sem hefur innihald, að lifa lífi þar sem við sinnum okkur sjálf og öðrum, þar sem við uppbyggjumst, styrkjumst og eflumst?

Þar sem leitast er stöðugt við að rækta hið góða?

Skipti ég einhverju máli?

Já, þú skiptir máli og við öll.

Sérhvert og eitt.

Það skiptir máli samkvæmt kristinni trú, hvernig lífi skuli lifað.

Kærleiksríku lífi.

Kristinn trú boðar að Guð sendi son sinn Jesú Krist til þess að lifa og starfa í þessum heimi, sem manneskja.

________________

Í Dymbilviku, á Pálmasunnudegi kom Jesús til Jerúsalem.

Í Jerúsalem var verið að fagna páskhátíð og þess vegna mikill mannfjöldi saman komin vegna fórnar páskalambsins hjá gyðingum.

Jesús var fagnað af mannfjöldanum, pálmagreinum var veifað og þær lagðar á götuna til að fagna komu hans.

Hrópað var:“Hósíanna, blessaður sé sá sem kemur í nafni Guðs.”

Jesús Kristi var fagnað konunglega en fimm dögum seinna var hann líflátinn.

Jesús leit ekki á sig, sem konung.

Hann neitaði því hlutverki.

Jesús leit á hlutverk sitt að þjóna, þjóna náunganum í orði og verki.

Jesús Kristur kom í friði, frá Guði sendur.

_________________

Á Skírdagskvöld þjónaði Jesús lærisveinum sínum með því að þvo fætur þeirra líkt og altaristafla Kópavogskirkju eftir Steinunni Þórarinsdóttur, listakonu skírskotar til.

Jesús borðaði með lærisveinunum síðustu kvöldmáltíðina og síðar var hann handtekinn af hermönnum og dæmdur til dauða fyrir það sem hann og kenndi og sagði.

Krossfestur á Föstudeginum langa.

Gerður Helgadóttir, listakona vísar til þess hér í Kópavogskirkju með steindum gluggum sínum á suðurvegg, þar sem rauði liturinn er ráðandi.

Litur, sem er tákn blóðs, baráttu og kærleika í kristinni trú.

Krossinn á altarinu hér hvílir á boga, hól, líkum hæðinni, Hausaskeljastað sem Jesús Kristur var krossfestur á.

Í anddyri Kópavogskirkju mætir manni verk eftir listamanninn Benedikt Gunnarsson.

Mynd af Jesú í augnhæð og í baksýn er Jerúsalem og Jesús á leið til aftöku á Hausaskeljastað.

Jesús Kristur er í verki Benedikts með lokuð augu og þá geta sálmalínur Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi komið upp í hugann:

“Með innri augun mínum ég undur mikil sé.”

                  __________________

 Stór stund, sár, djúp og sorgleg svo nokkur lýsingarorð séu notuð.

Viðburðríkt líf að baki og framundan aftaka.

Aftaka fyrir það sem Jesús Kristur hafði kennt og sagt.

Í óútkomnu ljóði sínu; “Dimmir Dagar” yrkir Ferdiand Jónsson, geðlæknir eftirfrandi:

                             myrkrið

                             kemur

                             skýin þungu

                             streyma

                             sefur í hjarta

                             uppgjöf

                             sár

                              á leiðinni ströngu

                             löngu

                             ljós

                              mannsins

Hér er lýst myrkri, þungum skýjum, sárri uppgjöf sem sefur í hjarta og langri og strangri leið.

Stundum er lífið manni “urð og grjót og upp í mót.”

Af hverju gerði ég þetta, hvað var ég að hugsa?

Af hverju þarf ég að lenda í þessu?

Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta?

Brauðstritið fer stundum í botn, erfitt getur verið að greina

aðalatriði lífsins frá aukaatriðum þess.

Hvað skiptir máli í þessu lífi?

Völd,

peningar,

fíknir,

heilsa,

nýjasti farsíminn og búnaðurinn sem honum fylgir,

kærleikur,

ást,

virðing,

ég,

þú,

fjölskyldan,

náunginn,

hvernig tíminn er nýttur, eða eitthvað annað?

Gleymist stundum að nema staðar?

Upplifa, leitast við að skilja það sem í kringum mann er?

Á maður að henda því til hliðar, sem gamalt er og manni finnst ef til vill erfitt að skilja?

____________________

Jesús Kristur sigraði dauðann, hann reis upp á þriðja degi boðar kristin trú.

Listakonan Gerður Helgadóttir, undirstrikar það á djúpan hátt í vesturgluggum Kópavogskirkju, þar sem græni liturinn tekur við af þeim rauða.

Grænn litur í kristinn trú táknar vöxt, trúna, traustið.

_________________

Ég trúi og treysti Guði.

Jesús Kristur lét líf sitt á krossi fyrir það sem hann kenndi, sagði og gerði.

Það féll ekki í kramið hjá þeim, sem völdin höfðu.

Guð, almáttugur sendi son sinn í þennan heim til að sýna okkur að trúin, vonin og kærleikurinn sigra.

Að það sé líf eftir dauðann.

Að ljós mannsins, “ljós heimsins” lýsi, styðji, styrki og leiði í hverju og einu í blíðu, sem stríðu.

Sr. Hallgrímur Pétursson gerir píslargöngu Jesú Krists að yrkisefni í Passíusálmunum.

Kveðskap, sem hefur fylgt íslenskri þjóð í nokkur hundruð ár.

Passíusálmarnir verða lesnir í ýmsum kirkjum landsins í dag.

Meðal annars; hér í Kópavogskirkju frá kl. 13:00-16:00.

Nokkrir félagar úr “Nafnlausa leikhópnum” annast lesturinn og flutt verður tónlist á milli sálmanna.

______________________

Umfjöllunarefni Passíusálmanna er kvöl og pína Jesú Krists á krossinum, pílsarganga Krists.

„Kannski höfum við tekið Passíusálmunum sem gefnum hlut, og gleymt að skilja þá”.

Þetta sagði Mörður Árnason, ritstjóri nýrrar útgáfu Passíusálmanna í kvöldfréttum Sjónvarps á síðasta ári.

Í þessari útgáfu er leitast við að færa Passíusálmanna nær nútímanum.

Í sömu sjónvarpsfrétt var einnig viðtal við unga konu, sem hefur tvisvar tekið þátt í flutningi Passíusálmanna hér í Kópavogskirkju.

Í sjónvarpsfréttinni var unga konan spurð að því; hvort Passíusálmarnir hafi sömu skírskotun og fyrir 400 árum?

„Nei, það held ég ekki.

Það eru ekki margir eins mikið trúaðir og þeir voru þá.

En samt, þetta er kær partur af lífi okkar þótt hann sé ekki eins stór,“ sagði hún.

Hekla segist skilja mest allt í Passíusálmunum.

„Sumt er svolítið gamaldags orðað en í heildina skil ég allt.“

Í þessari nýju útgáfu af Passíusálmunum eru ekki aðeins orðskýringar, heldur er líka reynt að setja sálmana í bókmenntafræðilegt, sögulegt og guðfræðilegt samhengi.

Höfundur segir ennfremur í sömu frétt:

„Ég held að við höfum ekki fjarlægst Passíusálmanna. En kannski höfum við tekið þá of gefna. Við höfum ekki einbeitt okkur að því að skilja þá og njóta þeirra eins og við gætum gert.“

___________________

Upprisuboðskapurinn á erindi til samfélags okkar nú sem fyrr.

Hann gefur von og gefur kraft til að takast á við verkefnin sem fyrir liggja.

Jesús Kristur treysti lærisveinunum fyrir boðskap sínum.

Hann treysti þeim til að fara og skíra og kenna.

Hann treysti þeim til að vera hirðar fólksins síns.

Jesús treystir þeim til að bera fagnaðarerindið áfram til næstu kynslóða.

Jesús lifir.

Jesús Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.

“Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.”

 Takið posullegri blessun:

“Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags ands sé með yður öllum. Amen.”