Að eilífu ——Amen – námskeið um bænina í Árbæjarkirkju

Faðirvorið eða Bæn Drottins eins og hún er oft nefnd er bænin sem Jesús kenndi fólki þegar það bað hann um að kenna sér að biðja. Þessi bæn er beðin út um allan heim af milljónum manna og hefur verið beðin í u.þ.b. 2000 ár á ýmsum tungumálum. Margir hafa lært hana utan að sem börn en lítið velt fyrir sér merkingu hennar á fullorðinsárum. En þessi bæn er mjög innihaldsrík við nánari skoðun. Hún er góð fyrirmynd annarra bæna og því tilvalin til þess að byggja bænalíf sitt á.

Miðvikudaginn 10. febrúar hefst námskeið um Faðirvorið í Árbæjarkirkju. þar sem rætt verður um bæn og bænaiðkun út frá bæninni sem Jesús kenndi. Þetta námskeið er fyrir alla sem vilja vita meira um Faðirvorið og bænalíf eða hafa áhuga á kristindómnum og vilja dýpka skilning sinn á kristinni trú. Námskeiðið stendur yfir í 6 vikur, á miðvikudagskvöldum frá kl:19:30-21:30. Það hefst 10. febrúar og lýkur 16. mars. Námskeiðið er öllum opið og kostar 3000 krónur. Leiðbeinandi er sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir. Skráning fer fram á netfanginu: petrina@arbaejarkirkja.is og í gegnum síma Árbæjarkirkju: 587-2405

Mál dagsins

Næsta „Mál dagsins“ verður þriðjudaginn 9. febrúar n.k. kl. 14:30 í safnaðarheimilinu og hefst að venju með samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Máteóvá.  Klukkan 15:10 flytur Anna Klara Georgsdóttir frá Kópavogsbæ erindi um móttöku bæjarins á flóttamönnum frá Sýrlandi.  Klukkan 15:30 verður drukkið kaffi.  Stundinni lýkur kl. 16:00 með stuttri helgistund.  Allir velkomnir.

Barna- og fjölskylduguðsþjónusta 7. febrúar

Barna- og fjölskylduguðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 7. febrúar n.k. kl. 11:00.  Sr. Sigurður Arnarson og Þóra Marteinsdóttir leiða stundina.  Félagar úr 3. bekk í Skólakór Kársnes syngja undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur.  Barn borið til skírnar.  Sunudagskólinn tekur þátt í stundinni. Allir hjartanlega velkomnir.

Kópavogskirkja og sólin

Nýlega tók Björg Eysteinsdóttir meðfylgjandi mynd af kirkjunni.

Prjónahópur

Prjónahópur Kópavogskirkju hittist 1 og 3 fimmtudag í hverjum mánuði í safnaðarheimilinu Borgum kl.20:00.  Allir hjartanlega velkomnir.

Útskorin gestabók

Miðvikudaginn 27. janúar síðastliðinn fór fram frá Kópavogskirkju útför Guðmundínu Oddbjargar Magnúsdóttur eða Mundu eins og hún var kölluð.  Munda var búsett í sókninni í áratugi.  Hún skar ýmislegt út í tré meðal annars gestabók með Kópavogskirkju framan á.   Meðfylgjandi ljósmynd var tekin af þessu fallega handverki Mundu.

Messa 31. janúar n.k.

Messa verður 31. janúar n.k. kl. 11:00 í Kópavogskirkju.  Sr. Sigurður Arnarson, prédikar og þjónar fyrir altari ásamt Ástu Ágústsdóttur, djákna.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Sunnudagaskólinn hefst í kirkjunni en flyst síðan í safnaðarheimilið Borgir.  Til messunnar eru boðin fermingarbörn vorsins og foreldrar þeirra.  Eftir messu verður fundur í kirkjunni með fermingarbörnum og foreldrum þeirra.

Mál dagsins 26. janúar

Næsta Mál dagsins verður 26. janúar n.k. kl. 14:30-16:00 og hefst með samsöng undir stjórn Friðriks Kristinssonar og Lenku Mátéová.  Um kl. 15:10 verður flutt 20 mínútna erindi.  Klukkan 15:30 er drukkið kaffi og stundinni lýkur kl. 16:00 með bæn og blessun.

Sorgarhópur

Mánudaginn 1. febrúar n.k. frá kl. 20:00-21:30 hefur göngu sína starf með syrgjendum alls 8 skipti (hisst er vikulega fyrstu 6 skiptin).  Hópurinn er ætlaður konum, sem hafa misst nána ættingja.  Handleiðslu annast Ásta Ágústsdóttir, djákni.  Nánari upplýsingar má fá á skrifstofu safnaðarins virka daga á milli 09:00-13:00 eða með því að senda tölvupóst á netfangið: asta.agustsdottir@kirkjan.is

Guðsþjónusta 24. janúar kl. 11:00

Guðsþjónusta verður í Kópavogskirkju sunnudaginn 24. janúar n.k. kl. 11:00.  Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari.  Kór Kópavogskirkju syngur undir stjórn Lenku Mátéová.  Sunnudagaskólinn hefst að venju í kirkjunni.