Sunnudagasmiðja

Við erum gríðarlega ánægð með þann áhuga sem skapast hefur í kringum sunnudagssmiðju kirkjunnar en um er að ræða starf sem er frábrugðið hefðbundna sunnudagaskólanum. 
 
Krakkarnir sem mæta í Borgir klukkan 11.00 á sunnudagsmorgnum hafa verið að vinna með ýmis listform, nú síðast leiklist. Þemað í vinnunni er kærleikur og hefur margt fallegt fæðst í þessari yndislegu stund. 
 
Tvo síðustu sunnudaga höfum við búið til sögur saman þar sem hver og einn leggur af mörkum eina setningu til að mynda eina heild. Einu fyrirmælin í sögustundinni er að sagan eigi að snúast um kærleik. Það hefur ekki vafist fyrir krökkunum og hafa þau til dæmis sagt sögu af dreng sem óhlýðnaðist móður sinni, fór einn að ganga út í skógi og hjálpaði litlum kettling og eignaðist úlf að vin. 
 
Síðasta sunnudag kenndum við krökkunum að það væri vel hægt að búa til sínar eigin bænir, en við biðjum alltaf í byrjun og lok smiðjunnar. Krakkarnir bjuggu til alveg hreint yndislega bæn og við stöndumst ekki mátið að sýna ykkur hana: 
 
Góði Guð
Ég vil biðja þig um að blessa þessa sunnudagssmiðju.
Viltu blessa alla sem mér þykir vænt um,
og alla sem eiga bágt. 
Viltu blessa alla sem eru á ferðinni í umferðinn
því það er orðið svo dimmt.
Amen
 
Endilega kíkið við í kærleikssmiðjuna í Borgum klukkan 11.00 á sunnudagsmorgnum.