Fræðslukvöld í Kópavogskirkju á þriðjudagskvöldum 5. apríl – 3. maí

Kópavogskirkja mun standa fyrir fyrirlestrum öll þriðjudagskvöld í apríl sem og þriðjudaginn 3.maí. Þriðjudaginn 5.apríl verður fjallað um guðfræðistef í tónlist Nick Cave og Bob Dylan. 12.apríl verður rætt um mikilvægi trúaruppfræðslu í fjölmenningasamfélagi. 19.apríl verður helgað fyrirgefningunni. 26.apríl verður fjallað um tilurð þess að Biblían varð almenningseign á Íslandi og áhrif boðskaps hennar á sálmaskáldið Sr. Valdimar Briem. Að lokum verður þriðjudagskvöldið 3.maí helgað áhrifum úr boðskap Davíðssálma Gamla testamentisins á þýska guðfræðinginn Dietrich Bonhoeffer og á vistfræði samtímans. Öll fyrirlestrarkvöldin hefjast klukkan 20:00 að Borgum, safnaðarheimili Kópavogskirkju.

Allir velkomnir, ávallt velkomnir! Kaffi og kleinur í boði.”

Fyrsta kvöld 5. apríl : Guðfræði í nútímatónlist. Nick Cave & Bob Dylan.

Kristján Ágúst Kjartansson er framkvæmdastjóri Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum. Hann hefur um árabil unnið að æskulýðsmálum innan þjóðkirkjunnar og stundar mag.theol nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Henning Emil Magnússon starfar sem grunnskólakennari og stundar mag.theol nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands.

Annað kvöld 12. apríl : Mikilvægi trúaruppfræðslu barna og unglinga.

Dr.Sigurður Pálsson er fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Jafnhliða sinnti hann stundakennslu við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Sigurður hefur ritað bækur og greinar um trúaruppeldi og kristindóms- og trúarbragðakennslu í skólakerfinu og hefur meðal annars komið að samningu námsefnis í kristnum fræðum fyrir grunnskóla.

Þriðja kvöld 19. apríl : Fyrirgefning

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir er prestur í Keflavíkurkirkju og formaður Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar. Sr. Sveinn Alfreðsson safnaðarprestur í Lindakirkju í Kópavogi. Hann hefur um árabil starfað sem skólastjóri, deildarstjóri, kennari og sérkennari.

Fjórða kvöld 26. apríl : Biblían og menningin

Sigfús Jónasson er tölvunörd, útvarpsmaður og stundar mag.theol nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Viðar Stefánsson hefur lokið mag.theol gráðu við Guðfræðideild Háskóla Íslands og stundar nú viðbótar meistaranám við sömu deild.

Fimmta kvöld 3. maí : Áhrif Davíðssálma. Bonhoeffer & vistfræði samtímans.

Aldís Rut Gísladóttir starfar sem æskulýðsfulltrúi í Guðríðarkirkju og stundar mag.theol nám við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Arnór Bjarki Blomsterberg starfaði um árabil sem kjötiðnaðarmaður en lauk mag.theol gráðu við Guðfræðideild Háskóla Íslands í febrúar 2016.