„Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín“

Hugleiðing 22. nóvember 2020, síðasti sunnudagur kirkjuársins – „sjúkur og þér vitjuðuð mín“ Matt. 25.

 

ENGLAR

 

  blár himinn

                           án enda

                           morgunsól

                           í myndum

                           pabba

                           mýkt

                           dúfur

                           við gluggann

                           lágværar

                           sjá einsemdina

                           óttann

                           sem vex og vex

                           dag eftir dag

                           dúfur

                           við gluggann

                           mínar dúfur

                           Mattheus

                           rís

 

                           sjúkur var ég

                           og þér vitjuðuð mín

Ferdinand Jónsson

 

 

Endanlaus blár himinn.

Myndir morgunnsólar.

Hvað er morgunnsól í myndum í lífi mínu?

Er það til dæmis: fólkið mitt?

Frá því getur komið, kemur og hefur komið sterkt tært ljós inn í lífið, ljós sem hefur lýst allt upp og gefið styrk, þrek og þol í lífsgönguna.

Þessi birta getur fylgt okkur svo áfram á stigum lífsins, þó að einhverjir, sem á sínum tíma gáfu þessa birtu séu látnir.

Mýkt.

Fuglar, dúfur við glugga.

Lágværar og þær sjá einmannaleika.

Ótta sem vex.

Og af hverju skyldi hann vaxa dag frá degi?

Dúfurnar eru mínar.

Hvað er átt við?

Er ég stundum einmanna?

Er ég stundum óttasleginn?

Af hverju?

Og svo kemur tilvitnun í guðspjallamanninn Mattheus:

„sjúkur og þér vijuðuð mín.“

Hér er ort sterkt og kraftmikið af innsæi og dýpt.

Ljóðið, sem ég fór með hér í upphafi og vitnaði í er eftir Ferdinand Jónsson, geðlækni í Lundúnum og er ort á fyrstu mánuðum Covid19 fyrr á þessu ári.

Semsagt í heimsfaraldri.

Ljóðið fjallar um hinn mikla kraft vináttunnar, sem hjálpar fólki yfir fjöll og ár lífsins, sem virðast ófærar.

Hvaða máli skiptir það að einhver vitjar manns þegar manni líður þannig að einnmannleikinn og óttinn virðast hafa tekið yfirhöndina hjá manni?

Manni finnst maður ekki ráða neitt við neitt.

Þetta hefur maður upplifað í stormum og stillum lífsins með einum eða öðrum hætti.

Í vikunni, sem leið stóð stórum stöfum á baksíðu eins dagblaðsins:

Einsemd er átakanleg og dauðans alvara.“

 Þetta eru orð að sönnu en því miður stór veruleiki.

Hvað veldur?

Það að einhver skuli láta mann varða sig er ómetanlegt.

Til dæmis: með brosi, hlýju, gleði, suðningi, skilaboðum í bréfi, á korti, í snjalltæki, með símtali eða heimsókn.

Tilbúinn að hlusta og sýna nærveru, sanna.

Treður sér ekki inn fyrir svæði manns.

Skammar ekki undir rós eða er í sektarkenndarfasa einhverjum.

Er ekki að ráðleggja yfir mann með orðræðum og tilmælum.

Heldur bara hlustar, sýnir samhyggð, samstöðu í orði og verki.

Er einlæg eða einlægur með virðingu og öllu sönnu og góðu.

Gefur af auðlegð hjarta síns.

Tengir frá hjarta til hjarta.

Er stöðug eða stöðugur í kærleika.

Í fyrra Jóhannesarbréfi segir einmitt:

„Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.“

 Vinarþel, kærleiksþel er ómetanlegt og svo undur fallegt eins og kærleikurinn.

Til dæmis: geta tilbrigði vináttunnar, svipbrigði og blær gefið styrk, þrek og kraft í krefandi og stundum í allt að óyfirstíganleg verkefni, sem lífið færir manni stundum.

Við erum hér á jörð.

Við getum lýst hvort öðru á góðan hátt í blíðu og stríðu.

Guð sendi okkur son sinn í þennan heim til að sýna okkur að trú, von og kærleikur sigra.

Jesús Kristur treysti okkur til að vera náunga okkar náungi í orði og verki.

Jesús sýndi okkur með fordæmi sínu og lífi að lífsgæði eru það að vera umkominn að veita öðrum eitthvað gott.

Matteus rís.

„Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín.“

Amen.