Hugvekja Halldórs Friðriks Þorsteinssonar frá 10. desember 2017

Eftirfarandi hugvekju flutti Halldór Friðrik Þorsteinsson, í bókmenntaguðsþjuðsþjónustu í Kópavogskirkju 10. desember 2017:

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Presturinn ykkar séra Sigurður sem er félagi minn frá fornu fari bað mig um að segja nokkur orð í tilefni þessarar bókmenntamessu sem kölluð er. Ég gaf nýverið út ferðasögu sem segir frá sex mánaða ferðalagi um Afríkuálfu sem ég tókst á hendur fyrir fjórum árum. Það var frá mörgu að segja eins og vænta mátti. Leiðin lá til fjórtán landa sunnan Sahara, átta landa vestanmegin álfunnar og sex landa í Austur og Suðurhlutanum. Hvað fær mann til að vilja ferðast einn um stóra álfu vítt og breitt? Það skyldi þó ekki vera forvitnin sem rekur mann áfram, undrunin yfir þessum stórkostlega heimi sem við búum í. Það eru auðvitað ákveðin forréttindi að geta það en þetta er líka spurning um val. Sumir velja að fara í framhaldsnám, ferðalög eru annar möguleiki til að mennta sig. Maður fær reyndar ekkert prófskírteini við komuna heim svo maður verður að láta sér flugmiðann nægja. Okkur Íslendingum eru ferðalög í blóð borin. Íslendingasögur segja frá tíðum ferðalögum og allar leiðir lágu til Rómar og í Grettissögur er sagt frá manni að nafni Þorbjörn sem fær viðurnefnið ferðalangur. Titill bókar minnar, Rétt undir sólinni er sóttur til annars ferðalangs, Jóns Indíafara sem sigldi um heimsins höf með skipum hans hátignar Kristjáns IV Danakonungs, þar á meðal alla leið til Indlands, meðfram Afríkuströndum drjúgan part. Og á einum stað í sinnu mergjuðu reisubók segir hann: “Þessi álfa Afríka, liggur rétt undir sólinni og hennar gangi”.
Afríka, þetta stutta seiðandi orð. Þessi stóra álfa. Sem geymir 54 lönd, hýsir 1250 milljónir íbúa svo ekki sé minnst á öll dýrin sem þar búa. Í afríku eru töluð 2000 tungumál og ættbálkarnir eru eitthvað fleiri. Þessi álfa sem er svo miðlæg á hnettinum, í næsta nágrenni Evrópu en svo fjarlæg í hugarheimi, álfan sem togar í mörg okkar en við erum samt svo smeyk við. Hvaða fyrirbæri er þetta? Við getum með sanni sagt að þetta sé fagur og auðugur landmassi á plánetunni jörð. En hvað meir? Afríka hefur mjög sérstakan sess í huga okkar, kannski helst fyrir það að hún er fæðingarálfa mannkynsins. Einstök sem slík. Og fyrir vikið vekur hún upp undrun og virðingu og margar stórar spurningar. Þegar maður stendur og horfir yfir gresjurnar í Tanzaníu þar sem dýralífið þróaðist í milljónir ára fær allt á sig guðdómlegt yfirbragð. Hér byrjaði ævintýrið hugsar maður, sem sköpunarsagan segir svo listilega frá í fyrstu Mósebók. Hafðu Guð í huga og minni, hafðu Guð fyrir augum þér, segir Hallgrímur Pétursson. Og ekki er er lotningin minni þegar maður heimsækir hana Lucy litlu á þjóðminjasafnið í Addis Ababa. Lucy er beinagrind af kvenkyns mannapa sem gekk upprétt um grundir norður Eþíópíu fyrir 3,6 milljónum ára. Hún fékk nafnið Lucy vegna þess að Lucy in the sky with diamonds var vinsælt á þessum tíma og hljómaði oft í tjaldbúðum fornleifafræðinganna. Beinagrindur þurfa nöfn eins og aðrir svo hægt sé að ávarpa þær. Lucy var lágvaxin og vóg aðeins 30 kg. Enginn veit hvernig Lucy leit út eða hvað hún hugsaði en hún var einn hlekkurinn á þróunarskeiði mannsins, einhversstaðar mitt á milli apa og manns. Eitt eilífðar smáblóm. Hvílir eins og fagurt skart undir glerborði í húsi í borg sem kennir sig við nýtt blóm, Addis Ababa.
Eþíópía er líklega það land í heiminum sem hvað flestir eru með hvað mestar ranghugmyndir um því fréttaveitur hafa hag af því að segja meira frá hörmungum en öðru fréttnæmu. Það er vissulega mikil fátækt í Eþíópíu og þar hafa orðið
alvarlegar hungursneyðir en það má líka segja frá því að fjölbreytni í landinu er eindæma mikil. Í suðurhluta landsins búa 80 þjóðir sem tala jafnmörg tungumál. Þarna mætast áhrif víða frá, Eþíópía er í krossgötum trúarbragða og verslunar. Saga kristninnar í Eþíópíu rekur sig allt aftur til 4ðu aldar og í Postulasögu Nýja Testamentisins segir frá því þegar Filippus guðspjallamaður hittir Eþíópskan hirðmann sem er að lesa Jesaja en endar með því að skírast til kristni. Eþíópía er annað fjölmennasta land Afríku, þar búa eitt hundrað milljónir, tæplega helmingur íbúa er kristinn, þriðjungur múhameðstrúar. Og það var einstök upplifun að fara í jólamessuna í Addis Ababa, þann 7da janúar sem er aðfangadagur í Eþíópíu. Eþíópíska réttrúnaðarkirkjan sækir hefðir sínar að miklu leyti til koptísku kirkjunnar í Alexandríu. Kl. átta um morguninn safnaðist fólk saman í hvítum klæðum fyrir utan hringlaga kirkju og gekk svo marga hringi kringum kirkjuna þar sem var sungið, trommað og úllað en það er sérstakt hljóð sem aðallega konurnar gáfu frá sér ótt og títt sem einhverskonar fagnaðarmerki. Því miður hef ég ekki á valdi mínu að herma efti því en það má finna á Youtube undir sögninni to Ululuate.
Annað land sem opinberaðist mér á töfrandi hátt var Gabon, land sem liggur á miðbaug með miklum regnskógum og stórfljóti sem af þeim flýtur. Ég var svo heppinn að þekkja eina Íslendinginn sem býr í Gabon, hana Díu Stephensen og með fjölskyldu hennar ferðaðist ég til þorpsins Lambarene sem guðfræðingurinn og læknirinn Albert Schweitzer ásamt konu sinni Helenu gerði að starfsvettvangi árið 1913. Um miðja síðustu öld skrifaði séra Sigurbjörn Einarsson frábæra æfisögu Schweitzers og þar má fræðast um þennan merkilega mann og konu hans sem settu á stofn spítala á fljótsbakkanum og hjúkruðu þar heimafólki með hléum í hálfa öld. Schweitzer tók með sér orgelið frá Strassborg enda einn færast organisti á sinni tíð og tónlistin sem við heyrum í dag er fléttuð af Bach og samtímatónlist frá Gabon.
Einn morguninná miðju ferðalagi, þegar ég settist upp í leigubíl í borginni Douala í Kamerún á leið í innanlandsflug, segir bílstjórinn mér í óspurðum fréttum að Nelson Mandela sé allur. Svo fylgdu nokkur stór lýsingarorð á frönsku. Stúlkan á innritunarborðinu á flugvellinum, hún Irena sagðist hafa grátið alla nóttina, hann var faðir okkar sagði hún, hann fyllti okkur stolti. Saga Nelson Mandela sem segir svo listilega vel frá í sjálfsævisögunni, “Long way to freedom”, er í hnotskurn saga Afríku síðustu 500 árin, eftir að Evrópubúar komu og rændu henni. Hún er saga manns sem var látinn dúsa blómann af æfi sinni í tukthúsi fyrir þá einu ósk að vera virtur sem manneskja til jafns við aðra. Séra Sigurbjörn Einarsson segir á einum stað í ritgerðarsafni sínu Haustdreifum: “Nú er það ein hinna furðulegu staðreynda lífsins að böl og andstreymi verða oft jákvæð reynsla”. Það var einmitt hæfileiki Mandela, að snúa andstreymi í þroska og styrk. Mandela lýsir því hvað fór um huga hans þegar hann gekk út úr fangelsinu sem sem hafði rænt hann 27 árum frá fjölskyldu og vinum: “Þegar ég gekk í áttina að fangelsishliðinu til móts við frelsið, þá vissi ég að ef að ég skildi ekki eftir hatrið og biturleikann, þá myndi ég enn vera í fangelsi þegar út kæmi”. Með öðrum orðum, honum tókst að fyrirgefa. Þannig breytti hann óréttlætinu í jákvæða reynslu og varð fyrir vikið að óumdeildum leiðtoga þjóðar sinnar. Tregðan til að fyrirgefa er oft og tíðum ein mesta hindrunin í samskiptum okkar en þegar okkur tekst að drepa hana úr dróma er hún frelsandi afl.
Blóðug nýlendusaga Afríku í bland við allskyns óáran hefur gert Afríku að nokkurs konar samvisku heimsins. Það er skiljanlegt en þá þarf að passa sig á hræsninni sem er leiðinlegur nágranni samviskunnar. Hugtakið þróunaraðstoð er eitt af þessum heilögu hugtökum sem valda oft geðshræringu í umræðu og þolir oftast nær ekki mikla umræðu. Þróunaraðstoð er flókinn málaflokkur með mörgum hliðum. Þar hafa mörg mistökin orðið og mikil sóun. Afríkubúar sjálfir hafa gagnrýnt það form sem Vesturlönd hafa almennt haft á þessari ölmusustarfsemi og frábeðið sér fjáraustur sem hefur skilað í mörgum tilfellum verri niðurstöðu en í upphafi og lent í röngum höndum. Umræða um það hvernig þróunaraðstoð er best varið er því réttmæt og nauðsynleg. En þegar maður ferðast um álfuna þá fyllist maður bjartsýni. Krafturinn í mannlífinu er mikill, álfan er ung, tæplega helmingur hennar er undir 15 ára aldri og ef það tekst að mennta ungu kynslóðina með sómasamlegum hætti þá munu lífskjör batna eins og þau hafa raunar gert umtalsvert síðustu tvo áratugi.
Afríkuútrásin sögulega, þegar mannkynið tók sig að litlum hluta upp og hélt af staðúr álfunni átti sér stað fyrir kannski 100 þúsund árum. Fámennur hópur fólks lagði upp í ferðalag, komst út úr álfunni á fjöru eða eiði og fikraði sig um gervalla jarðarkringluna mann fram af manni næstu 99 þúsund árin eða svo. Ísland og Nýja Sjáland voru síðustu tveir landnámsblettirnir á þeirri löngu vegferð. Tímans langa leið og þróunin hafði reyndar breytt útliti fólksins á leiðinni, mismikið sólarljós hafði breytt hörundslit. Öll erum við af sama meiðinum komin, þó Neanderdalsmaðurinn hafi slæðst inní genamengi okkar Evrópumanna sem nemur fjórum hundraðshlutum. En Neanderdalsmaðurinn var líka upprunninn frá Afríku, hann var af homo tegundinni sem gekk út úr Afríku 100 þúsund árum fyrr en homo sapiens en dó svo út fyrir 30 þús. árum. Þessi langa ferð mannsins vitiborna sem byrjaði í Afríku er ein óslitin atburðarrás, keðja kynslóðanna. Við erum nýjustu þátttakendurnir í henni, getum horft á hana með augum guðs sem eitt allsherjar sköpunarverk, undur sem við fáum aldrei fullskilið. Mér þykir við hæfi að enda þetta á lokaerindinu á hinu frábæra ljóði Tómasar Guðmundssonar um unga konu frá Súdan:

Og meðan kvöldljósin kynjabirtu um kristal og silki hlóðu,
og naktir armar og hrjúfir hljómar hverfðust í glitrandi móðu,
mér dvaldist við hennar dökku fegurð.
Samt dáðist ég enn meira að hinu,
hve hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.