Andlát séra Árna Pálssonar, fyrrverandi sóknarprests Kársnessóknar

8278691880_dc064c3267_hSéra Árni Pálsson lést 16. september síðastliðinn, 89 ára að aldri. Hann var fæddur á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi 9. júní 1927, sonur Önnu Árnadóttur frá Stóra-Hrauni og Páls Geirs Þorbergssonar verkstjóra frá Syðri-Hraundal. Árni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948 og guðfræðiprófi árið 1954. Hann sinnti ýmsum störfum, meðal annars kennslu við Gagnfræðaskólann við Lindargötu fram að því að hann tók vígslu 1961 og kenndi á Snæfellsnesi og við Þroskaþjálfaskólann meðfram prestsstörfum. Hann var sóknarprestur í Söðulsholti í Eyjahreppi 1961-1971 og þjónaði þá við sóknir á Mýrum og í Hnappadal. Varð sóknarprestur í Kársnesprestakalli árin 1971-1990 og síðan prestur á Borg á Mýrum 1990-1995.

Árið 1971 var Kópavogsprestakalli skipt upp í Kársnes- og Digranesprestakall og varð sr. Árni fyrsti sóknarprestur hér.  Sr. Árni var einstakur í framgöngu og framkomu með hjartahlýju sinni og öllu góðu.  Með þakklæti og virðingu þakkar Kársnessókn fyrir einstaka samfylgd með sr. Árna og fjölskyldu.  Guð geymi þau og leiði í öllu þeirra.

Jafnhliða preststörfum sinnti sr. Árni ýmsum félags- og trúnaðarstörfum meðal annars á sviði æskulýðsmála og á Snæfellsnesi var hann driffjöður í félagsstarfi hestamanna. Þá var hann þekktur sem snjall ræðumaður við ýmis tækifæri og oft kallaður til sem slíkur á góðum stundum. Einnig sinnti sr. Árni ýmsum félags- og trúnaðarstörfum fyrir hönd presta og skrifaði greinar um guðfræðileg efni og samfélagsmál í blöð og tímarit. Þá sinnti hann kennslu meðal annars við Þroskaþjálfaskóla Íslands sem starfræktur var í Kópavogi.

Eftirlifandi eiginkona sr. Árna er Rósa Björk Þorbjarnardóttir, fyrrverandi kennari og endurmenntunarstjóri. Börn þeirra eru Þorbjörn Hlynur prófastur á Borg, Þórólfur verkfræðingur, nú forstjóri Samgöngustofu, Anna Katrín ráðgjafi hjá Advania og Árni Páll alþingismaður og fyrrverandi ráðherra.

Útför séra Árna fer fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík fimmtudaginn 22. september klukkan 15.