Bæn vegna stríðsátaka í Aleppo og beiðni um að kirkjuklukkum verði hringt

Nýverði barst bréf frá biskupi Íslands til presta og formanna sóknarnefnda.  Í bréfinu segir meðal annars: Eins og fréttir herma er saklaust fólk limlest eða lætur lífið í stríðsátökunum í Aleppo í Sýrlandi þessa dagana. Ráðamenn virðast ekki geta fundið lausn til friðar og uppbyggingar. Hugmynd finnska prestsins Teemu Laajasalo í Kallio sókn í lútersku finnsku kirkjunni hefur orðið að veruleika. Honum sveið ástandið eins og okkur öllum og ákvað að klukkum í hans kirkju skyldi hringt daglega kl. 17 frá 12. til 24. október, en 24. október er dagur Sameinuðu þjóðanna.Þessi hugmynd hefur breiðst út og á vefnum http://bellsforaleppo.org/ má sjá að kirkjurnar í Svíþjóð, Bretlandi og víða í Evrópu hafa gert slíkt hið sama. Tilgangurinn er að sýna fólkinu í Aleppo, lífs og liðnu virðingu og samkennd og vekja athygli á ástandinu.Lúterska heimssambandið, sem Þjóðkirkjan er aðili að, vekur athygli á framtakinu og hvetur fleiri kirkjur til að taka þátt. Það getur ekkert réttlætt þjáningar barna og óbreyttra borgara í Aleppo.  Biskup Íslands hvetur presta og sóknarnefndir til að hringja klukkum kirkna frá mánudeginum 24. október kl. 17 í þrjár mínútur og daglega eftir því sem við verður komið til og með 31.október, sem er siðbótardagurinn.Um leið er til þess mælst að beðið verði fyrir fólki og ástandi í Aleppo og endir verði bundinn á þann hrylling er þar á sér stað.